Timburvinnsla

Innflutningur á timbri.

Innflutningur á timbri er hluti af okkar starfsemi. Við flytjum aðallega frá Lettlandi og Litháen en einstaka sinnum frá Svíþjóð og Noregi. Aðallega er um að ræða brettaefni sem við notum í okkar framleiðslu eða þá harðvið sem notaður er sem undirlegg undir framleiðsluvörur álfyrirtækjanna.

Brettasmíði.

Við framleiðum allar stærðir af brettum hvort sem um er að ræða staðlaðar stærðir eða sérsmíði. Okkar viðskiptavinir eru t.d. Brim, Samherji, Eimskip, Samskip, Lýsi, Elkem, RioTinto, Arctic Prime Fisheries, DFFU, Útgerðafélag Reykjavíkur, Hvalur, Ice Fish, Iraco, Fiskvinnslan Kambur, Kuldaboli, Marúlfur, Royal Iceland, BEWI Iceland ásamt fleiri góðum.

Gæðaeftirlit.

Við erum alltaf að vinna í því að bæta gæðin í okkar framleiðslu. Í því felst að við gerum gæðaúttekt á öllum okkar birgjum, þ.e. við losun á hverjum innflutningsgámi með brettaefni er gerð skoðun á efninu við móttöku. Erlendi birginn okkar fær svo skýrslu að úttekt lokinni þar sem skráð eru fávik ef einhver eru. Í gæðaúttekt á hráefni felst það að efnið er rakamælt, sjónskoðað og athugað hvort efnið stenst þær stærðarmælingar sem upp eru gefnar.
Gæðaeftirlit fer einnig fram í framleiðslu á brettunum. Þar er skoðað hvort brettin eru rétt negld saman, rétt efni og naglar notaðir, rakamæling og síðast en ekki síst hvort HT merking sé í lagi.

Endurvinnsla.

Við endurvinnum notuð vörubretti, þ.e. við tökum þau í sundur í sérstökum vélum og nýtum það efni sem er í lagi til smíði á nýjum vörubrettum. Við endurvinnsluna og framleiðsluna á brettunum fellur til mikið af timburúrgangi sem við kurlum og setjum ýmist í frekari mulning eða við búum til timburköggla. Hvort tveggja er notað sem undirburður undir hesta og hefur reynst mjög vel. Einnig höfum við grófkurlað í stóra sekki fyrir hestamenn sem þeir hafa svo notað í gólfið á reiðhöllum.

Við seljum undirburðinn í 20kg pokum og svo stórsekkjum ca 550 - 600kg